Inngangur stofnanda

image

Þetta hefur líklega verið í Júlí.

Það var fallegt sumarkvöld og við fórum saman, ég og konan mín og börnin okkar tvö, í labbitúr upp Laugarveginn.

Míró, sonur minn, varð þyrstur á leiðinni þannig að við stoppuðum þegar við sáum búð.

Ég sá strax að það var trappa. Bara ein en hún var frekar há. Of há fyrir mig til að komast inn á hjólastólnum.

Næstu fimm mínúturnar sat ég einn fyrir utan búðina á meðan þau fóru inn. Ég sat og horfði á þessa tröppu. Þessa einu tröppu sem skildi mig og fjölskylduna mína í sundur.

Þetta var ekki fyrsta trappan. Ég hef setið einn úti oft áður. Ég hef sleppt því að fara á kaffihús út af þessari tröppu. Sleppt því að hitta vini mína. Sleppt því að fara í bæinn á Þorláksmessu með fjölskyldunni minni.

Allt útaf þessari tröppu.

Og ég er ekki einn, langt í frá. Það eru þúsundir á Íslandi sem nota hjólastól. Þúsundir ferðamanna líka.

Fólk sem fær ekki að vera með eða taka þátt í lífinu útaf þessari tröppu.

Á meðan ég sat þarna þá ákvað ég að það væri tími kominn til að gera eitthvað í málinu.

Núna, rúmlega ári síðar erum við búin að byggja 100 rampa í miðbænum. 100 staðir sem við komumst ekki á áður.

Þegar ég lít til baka þá er ég ótrúlega þakklátur öllum sem komu að verkefninu. Það gekk hraðar og betur en ég hefði getað vonað.

Styrktaraðilarnir okkar, verkafólkið, borgin, stjórnin sem stýrði verkefninu og allt góða fólkið sem gaf tímann sinn í að gera þetta að raunveruleika.

Takk fyrir mig og takk fyrir okkur.

Lífið er aðeins betra en daginn fallega í Júlí. Trappan er orðin að rampi og ég ætla út í labbitúr með fjölskyldunni minni.

Með kveðju og þökkum

Haraldur Ingi Þorleifsson