Stofnendur sjóðsins hafa einsett sér að gera 100 veitingastað og verslanir í miðborg Reykjavíkur þar sem aðgengi er ábótavant, aðgengilegar fyrir 10. mars 2022. Þetta verður gert í góðri samvinnu við Reykjavíkurborg, húseigendur og íbúaÍ. Í því skyni hefur stjórn Sjóðsins sett sér eftirtaldar verklagsreglur. Þær eru ekki meitlaðar í stein og geta tekið breytingum ef þurfa þykir:
1. Forgangsröðun:
Unnið verður samkvæmt neðangreindri forgangsröðun:
Svæði A. Laugavegur í vestur frá Hlemmi, Bankastræti og Kvosin
Svæði B. Hverfisgata og göturnar á milli hennar og Laugavegs
Svæði C. Skólavörðustígur og göturnar á milli hans og Laugavegs
Svæði D: Önnur svæði í miðbæ Reykjavíku
Byrjað verði á lægstu hindrununum þar til markmiðinu er náð
Forgangur A: Þrep að 15 cm
Forgangur B: Þrep að 25 cm
Forgangur C: Þrep að 30 cm
Forgangur D: Hærri hindranir
Unnið verður að lausnum þar sem hurðarop er að lágmarki 83 cm
2. Jafnræði
Reykjavíkurborg hyggst, með verkefni sínu “9 skrefum”, gera aðgengilega innganga á hluta Laugavegs og Skólavörðustígs, húseigendum að kostnaðarlausu. Í anda jafnræðis verða framkvæmdir á vegum Aðgengissjóðs Reykjavíkur, viðkomandi húseigendum einnig að kostnaðarlausu.
Á móti er þess vænst (en ekki krafist) að húseigendur geri aðgengisráðstafanir, innandyra við hæfi.
3. Umsóknir
- Sótt er um á heimasíðu Sjóðsins; rampur@rampur.is og umsækjendum svarað við fyrsta tækifæri í samræmi við forgangsröðun stjórnar
- Samþykki stjórn sjóðsins, umsóknina fær umsækjandi í hendur hönnunargögn og verkáætlun. Áður en framkvæmd hefst ber umsækjanda að kynna sér viðkomandi gögn, veita upplýst samþykki og eftir atvikum, afla samþykkis meðeiganda og gera ráðstafanir, verði röskun á rekstri á meðan á framkvæmd stendur.
- Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að samþykkja eða hafna umsóknum eftir því sem hún telur ákjósanlegt, hverju sinni. Stjórnin leitast við að leysa vanda eigenda stakra húseigna þar sem reknir eru veitingastaðir eða verslanir en beina því til eignarhaldsfélaga/eigenda margra slíkra rekstrareininga að fjármagna sínar aðgengislausnir. Stjórnin mun, eftir mætti, aðstoða þá sem ekki fá úthlutað úr sjóðnum, svo sem hvað varðar leyfisveitingar, hönnun og sértækar lausnir