Stjórn Aðgengissjóðs Reykjavíkur
Áfangaskýrsla stjórnar Aðgengissjóðs Reykjavíkur
Stjórn Aðgengissjóðs Reykjavíkur hefur sem starfað síðan 11. mars sl. Skipulagsskrá sjóðsins kveður á um að hún starfi til eins árs og var stjórninni sett það verkefni að ljúka gerð 100 rampa á þeim tíma, eða fyrir 10. mars 2022.
Því verkefni er hins vegar lokið. Gerðir hafa verið 100 rampar, 4 mánuðum á undan áætlun, og af því tilefni skilum við þessari samantekt sem er í raun árshlutaskýrsla.
Við vorum eftirvæntingarfull og bjartsýn þegar við hófum störf en samt kom okkur það á óvart hvað þetta gekk vel og var lítið mál.
Skipulagsskrá
Í kjölfar samráðs Haraldar Þorleifssonar, Dags B. Eggertssonar og fleiri, sem hófst sumarið 2020, var skipulagsskrá fyrir Aðgengissjóð Reykjavíkur samþykkt í borgarráði 14. janúar 2021..
Við heildaryfirferð þeirrar samþykktar taldi fulltrúi sýslumannsins á Norðurlandi vestra (sem fjallar um mál sem þessi) ljóst að verulega vantaði upp á að fyrirhuguð sjálfseignarstofnun ætti sig sjálf og að miðað við samþykktina yrði henni stýrt, beint eða óbeint, af sveitarfélaginu Reykjavíkurborg.
Sjóðurinn myndi því ekki uppfylla skilyrði þess að teljast vera sjálfseignarstofnun í skilningi laga því engir aðilar gætu átt, haft umsjón með, eða stýrt sjálfseignarstofnun sem fær skipulagsskrá sína staðfesta samkvæmt lögunum heldur eigi sjálfseignarstofnanir sig sjálfar eins og nafnið gefur til kynna.
Stjórninni var því ljóst þegar hún tók til starfa skömmu síðar að skráin þyrfti endurskoðunar við. Við tóku samskipti við sýslumann um ásættanlegan texta og í því ferli var leitað aðstoðar Óskars Sigurðssonar, lögmanns, sem reyndist stjórninni mjög vel og skilaði texta sem borgarlögmaður og síðan sýslumaður samþykkti 13. apríl 2021.
Deloitte vann síðan nauðsynlega útfærslu, s.s. að útbúa skuldaviðurkenningarblöð fyrir þá sem lögðu fram framlag í formi vinnu og efnis, og afhenti stjórn sjóðsins yfirlit yfir vörslureikning stofnunarinnar, sem staðfesti innborgað stofnfé eftir að stjórnin hafði safnað öllum framlögum.
Endanleg útgáfa skipulagsskrár (hlekkur ) var svo samþykkt af Sýslumanni í byrjun júní og birt í Stjórnartíðindum um mánuði síðar, en henni fylgir jafnframt stofnfundargerð (hlekkur 2- sjá pdf frá Óskari ). Þá fyrst gat sjóðurinn fengið langþráða kennitölu og opnað bankareikning
Stofnendur
Eins og áður sagði átti Haraldur Þorleifsson í viðræðum við Dag B. Eggertsson og starfsfólk hans um stofnun Aðgengissjóðsins sumarið og haustið 2020. Úr varð að Reykjavíkurborg lagði 5 milljónir til sjóðsins og Haraldur gerði slíkt hið sama. Síðan bauð Haraldur fleirum að taka þátt, með því fororði að þeir sem leggðu til eina milljón króna eða meira, teldust til stofnenda.
Viðtökurnar voru góðar svo ekki sé meira sagt. Nánast allir sem talað var við voru tilbúnir að leggja málefninu lið og það sannaðist að skortur á aðgengi byggist ekki á illvilja.
Fjöldi einka- og opinberra aðila var tilbúinn að leggja eina til fimm milljónir í sjóðinn og á stuttum tíma höfðu safnast 55,5 mkr milljónir, aðallega í peningum en einnig í formi efnis- og vinnuframlags.
Stofnendur, skráðir í skipulagsskrá, eru: Ueno, BYKO, Kvika banki, Össur, Reginn, Reykjavíkurborg, Brandenburg, Íslandsbanki, Hagar, Aton. JL, forsætisráðuneytið, Deloitte félagsmálaráðuneytið, Íslenskir aðalverktakar, Öryrkjabandalag Íslands, Sjálfsbjörg og Jakob F. Magnússon. Síðan bættust í hópinn BM Vallá, Efla, og Eik fasteignafélag.
Stjórnin hefur leitast við að halda stofnendum upplýstum um störf sín og boðið þeim á vígsluathafnir og aðrar uppákomur sem sjóðurinn hefur staðið fyrir.
Stjórn
Stjórnin hefur kappkostað við að fylgja skipulagsskrá Aðgengisjóðsins.
Í 6. gr. segir m.a. „Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur aðilum og þremur til vara. Stjórnin skal skipuð til eins árs í senn. Haraldur Ingi Þorleifsson tilnefnir einn stjórnarmann og annan til vara, Reykjavíkurborg tilnefnir einn stjórnarmann og annan til vara og Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, tilnefnir einn stjórnarmann og annan til vara. Gengið skal frá skipun fyrstu stjórnar stofnunarinnar á stofnfundi. Með stofnuninni starfar starfsmaður mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, en kosnir skulu a.m.k. formaður, ritari, sem jafnframt skal vera varaformaður og gjaldkeri. Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina.“
„Fulltrúi Haraldar Þorleifssonar er Þorleifur Gunnlaugsson og Haraldur til vara. Fulltrúi Reykjavíkurborgar er Þorkell Heiðarsson og Anna Kristinsdóttir til vara og fulltrúi Sjálfsbjargar er Ósk Sigurðardóttir og Bergur Þorri Benjamínsson til vara“
Fyrsti eiginlegi stjórnarfundur Aðgengissjóðs var 17. mars 2021 en gengið var úr skugga um að stjórn væri heimilt að starfa á eðlilegan hátt þótt skipulagsskrá hafi ekki verið staðfest og birt. Hún vann þá skv. samþykkt borgarráðs um skipan stjórnar.
Á fundi sínum 23. mars skipti stjórn með sér verkum þannig að formaður var kjörinn Þorleifur Gunnlaugsson, gjaldkeri Ósk Sigurðardóttir og meðstjórnandi Þorkell Heiðarsson, sem kjörinn var ritari stjórnar og varaformaður á fundi stjórnar viku síðar.
Starfsmaður stjórnar er Tómas Ingi Adolfsson og vill stjórnin nota þetta tækifæri til að þakka honum vel unnin störf, fagmennsku og einstaklega ljúft viðmót.
Ákveðið var að funda vikulega til að byrja með, á þriðjudögum kl. 14.00-16.00, og voru fundir haldnir í fundarherbergi Sjálfsbjargar að Hátúni. Fundir voru færri yfir sumarmánuðina en fjölgaði þegar leið á haustið. Stjórnarsetan er ólaunuð.
Tilgangur og markmið
Í annarri grein skipulagsskrár, segir:
„Markmið stofnunarinnar er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum í Reykjavík. Stofnunin styrkir aðila til að koma upp römpum eða annars konar lausnum við innganga sína í Reykjavík og tryggja þannig að fólk með hreyfihömlun hafi aðgengi að þeirri þjónustu sem þar stendur til boða. Slíkar lausnir mega þó aldrei verða til þess að hindra aðgengi annarra hópa fatlaðs fólks“
Mörgum þótti það bratt að ætla að gera 100 veitingastaði og verslanir í miðbæ Reykjavíkur aðgengilegar öllum á einu ári en með góðri samvinnu við eigendur húsanna, rekstraraðila og skipulagsyfirvöld í Reykjavík tókst það vonum framar. Byrjað var á einföldustu og ódýrustu lausnum, s.s. lægstu mishæðinni og haft í huga að fyrir fólk í hjólastól er aðgengi jafnómögulegt hvort sem trappan er ein eða fleiri.
Þegar leið á verkefnið gerði stjórnin sér óskalista um aðgengi að stöðum sem hreyfihamlaðir, ekki síst þeir sem eru í yngri kantinum, vilja helst sækja til að sinna sínum félagslegum þörfum , veitingastöðum, kaffihúsum og börum í miðbænum. Þetta kallaði í mörgum tilfellum á flóknari og dýrari útfærslur.
Eins og áður sagði var markmiðinu um að gera 100 staði í miðbænum aðgengilega fyrir 11 mars 2021 náð rúmum 4 mánuðum á undan áætlun og undir kostnaðaráætlun.
Fjármál
Í 3. gr. Skipulagsskrárinnar segir m.a.:
„Stofnfé stofnunarinnar eru framlög einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og opinberra aðila sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra í Reykjavík.“
Upphaflegt markmið sjóðsins var að safna 30 milljónum og þótti bratt. Þegar til kom gekk vonum framar að ná inn fjármagni. Fyrirtækjum, opinberum aðilum og félagasamtökum var, eins og áður sagði, boðið að koma í hóp stofnenda með því að leggja fram að lágmarki 1 milljón. Framlög urðu frá einni milljón til fimm, mest greidd með peningum en einnig með vinnu og efni.
Heildarstofnframlag stofnenda, skráð í Skipulagsskrá er kr. 55.500.000 sem sundurliðast svo:
- Aton ehf., kr. 4.000.000 í formi vinnuframlags,
- Brandenburg ehf., kr. 4.500.000 í formi vinnuframlags,
- Byko ehf., kr. 5.000.000 í formi úttektar,
- Deloitte, kr. 3.000.000 í formi vinnu,
- Félagsmálaráðuneytið f.h. Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, kr. 2.000.000 í peningum,
- Forsætisráðuneytið f.h. Stjórnarráðs Íslands, kr. 3.000.000 í peningum,
- Hagar hf., kr. 2.000.000 í peningum,
- Jakob Frímann Magnússon, kr. 1.000.000 í formi vinnu,
- Kvika banki hf., kr. 5.000.000 í peningum ,
- Íslenskir aðalverktakar hf., kr. 1.000.000, þ.e. kr. 500.000 í formi vinnuframlags og kr. 500.000 með efnisframlagi,
- Íslandsbanki hf., kr. 3.000.000 í peningum,
- Reykjavíkurborg, kr. 5.000.000 í peningum,
- Reginn hf., kr. 5.000.000 í peningum,
- Sjálfsbjörg, kr. 1.000.000 í peningum,
- UENO, kr. 5.000.000 í peningum,
- Öryrkjabandalag Íslands, kr. 1.000.000 í peningum og
- Össur ehf,. kr. 5.000.000 í peningum
Eins og sést er megnið af framlögum í peningum en hluti þess er í formi vinnuframlags (um 10.000.000) og nú er uppi sú staða að óskað er eftir því að þeir sem það gáfu. gefi út reikning fyrir framlagi sínu. Þetta góða fólk þyrfti þá að greiða skatta vegna mikillar sjálfboðavinnu en það var aldrei meiningin. Verið er að greiða úr þessu og árshlutareikningur er því ekki til staðar.
Eftir að sýslumaður samþykkti skipulagsskrá bættust í hópinn BM Vallá með allar hellur í verkefnið að andvirði 1.500.000, Efla með sérfræðiaðstoð að andvirði kr. 2.100.000 kr, og Eik fasteignafélag með framlag í peningum kr. 1.500.000.
Það er gaman að segja frá því að þegar allur kostnaður vegna 100 rampa verður fullgreiddur verða 15 milljónir eftir í sjóðnum sem nýtast til áframhaldandi framkvæmda.
Stofnaðilar voru fullvissaðir um að allt fjármagn sem lagt var til sjóðsins færi óskert til uppbyggingar rampa og ekkert af þessu fjármagni færi í yfirbyggingu. Allur aukakostnaður hefur verið greiddur af Haraldi Þorleifssyni, sem meðal annars hefur staðið straum af lögfræðikostnaði, götuhátíð, gerð og uppsetningu áletraðra borða, límmiðum í glugga, „minirömpum“ og veitingum á fundum og uppákomum.
Þessi kostnaður er ekki færður til bókar né heldur framlag Sjálfsbjargar sem bauð upp á fundaraðstöðu og veitingar á stjórnarfundum. Fjölmargir hafa lagt til vinnu og annað án endurgjalds. s.s stjórn sjóðsins, ljósmyndarar, kvikmyndatökufólk, bakarar, samlokuframleiðendur, gosdrykkjaverksmiðjur, hljóðmenn og svo mætti lengi telja. Einnig barst sjóðnum gjöf að upphæð 150.000 kr frá Ölgerðinni.
Upphaflega var stefnt að því að sjóðurinn greiddi 80% kostnaðar við gerð og uppsetningu rampanna en fljótlega var horfið frá því og ákveðið að greiða allan kostnaðinn.
Þar kom kom fernt til:
Í fyrsta lagi kom ekki sá fjöldi umsókna sem búist var við og þurfti stjórnin því að bjóða flestum húseigendum sem til greina komu ramp að húsi sínu.
Í öðru lagi var gjaldtaka þrándur í götu rekstaraðila sem margir börðust í bökkum vegna Covid 19
Í þriðja lagi hefur legið fyrir að Reykjavíkurborg muni í framtíðinni gera lítinn hluta miðbæjarins aðgengilegan, eigendum að kostnaðarlausu, sem hefði ógnað jafnræði ef hinir hefðu þurft að greiða hluta kostnaðarins.
Í fjórða lagi gekk mun betur að safna fé en reiknað var með þannig að sjóðurinn nær að fjármagna 100 rampa og gott betur.
Þá lá einnig fyrir yfirlýsing frá Haraldi þess efnis að hann tæki fjárhagslega ábyrgð á því að 100 rampa markmiðið næðist, hvað kostnað varðaði.
Bókhald
Í 8. gr. skipulagsskrárinnar segir m.a.:
„Stjórn stofnunarinnar skal velja einn eða fleiri löggilta endurskoðendur (eða endurskoðendafélög) / skoðunarmenn til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur/skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna stofnunarinnar“
Þegar til kom baðst Reykjavíkurborg undan því að halda utan um bókhald, eins og fyrirhugað hafði verið, sem var, með tilliti til sjálfstæðis sjóðsins, farsæl ákvörðun. Þá leitaði Haraldur til hins virta fyrirtækis Deloitte, sem bauðst til að sinna endurskoðun og bókhaldi sjóðsins án endurgjalds og bættist þannig í hóp stofnaðila.
Gjaldkeri stjórnar, sem sá um samskiptin við Deloitte og fékk síðan prókúru, vann með fyrirtækinu að ýmsum verkefnum tengdum fjármálum, s.s. að uppfylla þau skilyrði sem skipulagsskrá setti.
Kostnaður sjóðsins fólst í greiðslum vegna verktaka sem unnu að hönnun, gerð rampanna, samskiptum við hlutaðeigandi og utanumhald en einnig vegna álplatna í hurðarop og varúðarmáningar á kantsteina o.fl.
Þegar kom að fyrstu greiðslum höfðu tafir við gerð skipulagsskrár orðið þess valdandi að ekki var komin kennitala né bankareikningur og lánaði fyrirtæki Haraldar því það sem til þurfti. Þetta var síðan endurgreitt þegar tækifæri gafst.
Samvinna við opinbera aðila
Það hefði verið óvinnandi vegur að vinna verk sem þetta án náinnar samvinnu við opinbera aðila og velvildar af þeirra hálfu.
Reykjavíkurborg
Í aðdraganda stofnunar sjóðsins var haft samráð við borgarstjóra, forsætisráðherra, félagsmálaráðherra, forystufólk í atvinnulífinu og fleiri.
Mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar og borgarritari áttu auk þess ríkan þátt í því að koma verkefninu af stað með Haraldi.
Í framhaldi af stofnfundinum 11 mars byggðist svo upp náin samvinna við Umhverfis- og skipulagssvið, en það átti drjúgan þátt í velgengni verkefnisins.
Strax á fyrstu fundum með Ólöfu Örvarsdóttur, sviðsstjóra USK, og Rebekku Guðmundsdóttur, borgarhönnuði lá fyrir að sviðið hefði einsett sér að gera það sem í þess valdi stæði til að átakið gengi hratt og vel fyrir sig.
Í byrjun apríl var komið á virkt samstarf við Umhverfis- og skipulagssvið. Það uppfærði verkferla, gerði regluverkið hagstætt fyrir framkvæmdirnar og upplýsti borgarstarfsfólk sem að verkinu kom af hálfu borgarinnar.
Sviðið bauðst til að sjá um umsóknir um afnotaleyfi og taka á sig kostnað vegna þeirra. Það útvegaði tengilið vegna hitalagna í stétt (til leiðsagnar og ef eitthvað færi úrskeiðis), afhenti verktökum sjóðsins bílastæðakort fyrir stæði við verkstað, bauðst til að sinna samskiptum við Veitur ef á þyrfti að halda, skannaði stóran hluta af verksvæðinu fyrir því sem þau töldu auðvelt að gera aðgengilegt og á meðan verkefni voru einfaldari voru umsóknir afgreiddar með dags fyrirvara. USK útvegaði Aðgengissjóði einnig svæði í miðbænum til að geyma sand og hellur og þann úrgang sem til fellur á meðan á verkefninu stendur.
Þar sem nánast í öllum tilfellum var verið að vinna á borgarlandi var nauðsynlegt að sækja um afnotaleyfi (linkur á umsóknina: https://reykjavik.is/thjonusta/afnotaleyfi-i-borgarlandi)
Með umsókn þarf að fylgja teikning af fyrirhugaðri framkvæmd, tímasetning og vinnusvæðamerking (vinnusvæðamerkingar eru unnar af fagfólki með tilskilin réttindi)
Húsnæðismálastofnun (HMS)
Í aðdraganda sjóðstofnunar kom Ásmundur Einar Daðason, félags- og húsnæðismálaráðherra til fundar við hvatafólk sjóðsins og lagði gott eitt til. Hann kom síðan á fundum með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem hann, ásamt forstjóranum og starfsfólki hans lýsti vilja sínum til að fara yfir regluverk stofnunarinnar til að fyrirbyggja að ekkert þeim megin truflaði verkefni sjóðsins.
HMS tilnefndi tengilið sem stjórnin gat verið í beinu sambandi við og bauðst einnig til að skoða þann möguleika að fjármagna starfskraft fyrir sjóðinn (í gegnum Vinnumálastofnun) og sjá honum fyrir vinnuaðstöðu en það er til marks um hvað verkefnið gekk hindrunarlaust fyrir sig að ekki var látið á þetta reyna. Það var þó ómetanlegt að finna fyrir einlægum stuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hafa til hliðsjónar leiðbeiningar hennar og að geta ráðfært sig við tengiliðinn.
Minjastofnun
Í tveimur tilfellum var höfð samvinna við Minjastofnun vegna aðgengis að friðuðum húsum. Skemmst er frá því að segja að Pétur H. Ármannson, sviðstjóri, tók fulltrúum sjóðsins mjög vel og vildi allt gera til að greiða götu verkefnisins og gera friðaðar byggingarnar aðgengilegar. Þetta gefur góðar vonir um framhaldið.
Verklag, verkefni og val þeirra
Stjórnin setti sér verklagsreglur sem síðan voru birtar á heimasíðunni (hlekkur í rampur.is).
Tekið var fram að reglurnar væru ekki meitlaðar í stein og gætu tekið breytingum ef þurfa þætti sem varð raunin í nokkrum tilfella í lok verkefnisins:
Unnið var samkvæmt eftirtöldum viðmiðum:
- Svæði A: Laugavegur í vestur frá Hlemmi, Bankastræti og Kvosin, Svæði B: Hverfisgata og göturnar á milli hennar og Laugavegs, Svæði C: Skólavörðustígur og göturnar á milli hans og Laugavegs, Svæði D: Önnur svæði í miðbæ Reykjavíkur
- Byrjað verður á lægstu hindrununum þar sem ein trappa er jafn mikil hindrun og 10 fyrir flesta hreyfihamlaða. Forgangur A: þrep að 15 cm, forgangur B: þrep að 25 cm, forgangur C: þrep að 30 cm, forgangur D: hærri hindranir. Unnið verður að lausnum þar sem hurðarop er að lágmarki 83 cm.
Byrjað á 15 cm hindrunum og lægri og haft í huga að ekki þarf byggingarleyfi fyrir hindrunum upp að 25 cm. Í þeim tilfellum þarf skábrautin að vera 1:12 en þar fyrir ofan þarf hún að vera 1:20. Þannig þarf 40 cm hæðarmunur (1:20) að lágmarki 8 m skábraut. Ákveðið var því að leggja megináherslu á lausnir 25 cm og lægri til að byrja með.
Tekið var fram að í þessari atrennu væri eingöngu unnið að því að koma á aðgengi inn í staðina. Af hálfu sjóðsins væri ekki gerð krafa um aðra þætti, s.s salernisaðstöðu og sjálfvirka hurðaopnara en eigendur og rekstraraðilar hvattir til að huga að þeim málum.
Kortlagning
Eins og fyrr segir vann USK mikið verk við að kortleggja svæðið en stjórnarmenn og aðrir gerðu það líka. Að fengnu afnotaleyfi frá Reykjavíkurborg var talað við húseigendur og eftir atvikum rekstraraðila en verkefninu var almennt vel tekið.
Í lok júní þegar ljóst var orðið að meirihluti þeirra staða sem fengið höfðu ramp voru verslanir ákvað stjórn Aðgengissjóðsins að áhersla yrði lögð á að bæta aðgengi að veitingastöðum, kaffihúsum og börum á forgangssvæði verkefnisins. Þetta þyrfti til að draga úr félagslegri einangrun fatlaðs fólks.
Stjórnin gerði sér óskalista og voru nefndir staðið á borð við Laundromat, B5, Sólon, Prikið, Italíu, Kaffibarinn, Mat Bar, Kalda, Public House, Sand bar, Rossopomodoro, Hraðlestina, Austur-Indíafélagið, Bravó, Sölku Völku, Café Babalu, Bodega, Sjávargrillið, Mokka, Eldur Ís, Apótekið og Skuggabaldur.
Meirihluti þessara staða eru nú þegar orðnir aðgengilegir. Aðrir reyndust flóknari og bíða betri tíma.
Umsóknir
Í upphafi bjó stjórnin sig undir að taka við fjölda umsókna. Það varð ekki reyndin en umsóknum fjölgaði þó þegar á leið. Sennilega réði efnahagsástandið og sú deyfð sem ríkti í miðbænum miklu en framan af var talsvert af verslunum og veitingastöðum lokaðir.
Allar umsóknir sem bárust voru teknar fyrir á stjórnarfundi. Í framhaldinu sá starfsmaður stjórnar um að svara umsóknum sem ýmist var vísað til hönnuðar til skoðunar eða eftir atvikum samþykktar eða hafnað með vísan í verklagsreglur sjóðsins. Allar ósamþykktar umsóknir eru vistaðar og til skoðunar haldi verkefnið áfram.
Unnið var samkvæmt eftirfarandi verklagi:
- Sótt er um á heimasíðu Sjóðsins; rampur@rampur.is og umsækjendum svarað við fyrsta tækifæri í samræmi við forgangsröðun stjórnar
- Samþykki stjórn sjóðsins umsóknina fær umsækjandi í hendur hönnunargögn og verkáætlun. Áður en framkvæmd hefst ber umsækjanda að kynna sér viðkomandi gögn, veita upplýst samþykki og, eftir atvikum, afla samþykkis meðeiganda og gera ráðstafanir, verði röskun á rekstri á meðan á framkvæmd stendur
Verktakar
Á sama tíma og Umhverfis- og skipulagssvið var að klára verkferla sem hentuðu framkvæmd sem þessari var samið við hönnuð og verktaka um fyrsta rampinn, en hann var hugsaður sem prufustykki. Þetta var rampurinn við Kokku á Laugavegi sem þótti takast vel og þeir hnökrar sem fram komu við gerð rampsins voru skoðaðir og nýttir til að gera ferlið nær hnökralaust.
Páll Hjaltason arkitekt telst til guðfeðra verkefnisins. Hann var með frá upphafi, reynsla hans reyndist dýrmæt og hann gaf alla sína vinnu. Páll hannaði fyrsta rampinn, lagði línur fyrir framhaldið og veitti mikilvæga aðstoð við val á aðalhönnuði verksins.
Íslenskir aðalverktakar með virkri þátttöku stjórnarformannsins, Sigurðar R. Ragnarssonar unnu Kokkurampinn af alkunnri fagmennsku og góðri sátt við rekstraraðila Kokku en ÍAV er einn stofnaðila sjóðsins og rampurinn var hluti framlags fyrirtækisins.
Með þessa reynslu að baki lagði stjórnin í þann leiðangur að finna verktaka og hönnuði. Það varð fljótt ljóst að hentugast væri að vera með sem fæsta verktaka. Það og góð samvinna við USK tryggði skilvirkni, hagkvæmni og samfellu.
Niðurstaðan varð sú að ráða landslagsarkitekt til að hanna rampana.
Lilja Kristín Ólafsdóttir landslagsarkitekt er í teymi sem unnið hefur að því að forhanna göngugötuhluta Skólavörðustígs. Hún var sögð hafa næmt auga fyrir hæðarlegu, samsetningu hellna, útliti og ásýnd.
Lilja var nýlega orðin „freelance“ og er skemmst frá því að segja að samningar (hlekkur á samninginn) tókust við Lilju um að hanna, sinna verkefnisstjórn og eftirliti með gerð 99 rampa fyrir 1 nóvember sl. Lilja var mjög sanngjörn í verðlagningu sinni sem án vafa átti rót sína að rekja til réttsýni hennar og mannréttindasýn.
Formaður stjórnar og Lilja lögðu nú af stað til að finna verktaka. Fjórir aðilar settu sig í samband við sjóðinn og buðu fram vinnu sína. Einn þeirra kom til skoðunar en var ekki samþykktur af afnotadeild borgarinnar.
Fram fór verðkönnun meðal nokkurra landslagsverktaka og samið var við einn þeirra um gerð 80 rampa fyrir 1 nóvember sl.
Stjörnugarðar ehf gerðu mjög hagstætt tilboð í verkið sem samið var um (gera hlekk í samninginn) sem reyndist að hluta vera of lágt og var samið um minniháttar uppbót (gera hlekk í viðaukasamninginn) á ákveðnum þáttum. Síðan var samið um (gera hlekk í samninginn) gerð síðustu 19 rampana. Stjörnugarðar skiluðu vandaðri vinnu á umsömdum tíma og í góðri sátt við stjórn sjóðsins, verkefnisstjóra, húseigendur og rekstraraðila.
Ýmsir aðrir lögðu hönd á verkið:
Samið var við (gera hlekk í samninginn) Birgi Jóakimsson sem sinnti samskiptum við ýmsa húseigendur og rekstraraðila auk þess sem hann hélt utan um gögn og gerði þau aðgengileg fyrir vef stjórnar og veitti margvíslega aðstoð við verkið.
Hólmsteinn Brekkan fékk gerðar rifflaðar álplötur í nokkur hurðargöt án þess að taka laun fyrir vinnu sína auk þess sem fyrirtæki hans sá um að mála varúðarlínur og setja varúðarhnappa á rampa þar sem það þurfti.
Aðalvík ehf. sá um uppsteypu við rampinn við Bankastræti 5.
Berglind Hallgrímsdóttir samgönguverkfræðingur og félagar hennar hjá Eflu hönnuðu ramp við Laundromat sem var ekki einfalt mál þar sem húsið er alfriðað og hönnunin því háð samþykki Minjastofnunar og Húsafriðunarnefndar. Gerð rampsins er ekki lokið þar sem fyrst þarf að vinna við húsið til að stöðva leka en hönnunin er talin einstök og til vitnis um að hægt sé að gera allar byggingar aðgengilegar.
Berglind tók enn fremur út aðgengi að Apótekinu og skilaði skýrslu sem nýtast mun vel í viðræðum við húseigendur.
Eftirlit og úttektir
Aðalhönnuður verksins, Lilja Kristín Ólafsdóttir, sinnti jafnframt eftirliti með gerð þeirra rampa sem hún hannaði, auk þess sem borgarhönnuður og starfsfólk hennar tóku þá út, en verkið byggði á nánu samstarfi formanns stjórnar, hönnuðar, verktaka og borgarhönnuðar.
Auk þess fékk stjórnin Eflu til að meta og taka út einn ramp sem sagður var skapa hættu en í því tilfelli var einnig leitað til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem gaf umsögn.
Nokkrir rampar hafa verið endurbættir og lögð hefur verið áhersla á að gera varúðarmerkingar þar sem þess hefur verið talin þörf. Það mun einnig verða gert við rampa á svæðinu sem Aðgengissjóður hefur ekki komið að en teljast skapa hættu.
Tímamót, „minirampar“ og límmiðar
Framleiddir voru 100 tölusettir „minirampar“ (litlir rampalaga minjagripir) og límmiðar í glugga með merki átaksins sem stjórnarfólk og fleiri afhentu síðar eigendum eða rekstraaðilum þeirra staða sem sjóðurinn gerði aðgengilega
Í nokkur skipti var blásið í lúðra og gerður dagamunur. Þetta hafði tvíþættan tilgang: annars vegar að vekja athygli á átakinu og afla því stuðnings og hins vegar að þétta raðirnar og efla anda þeirra sem að því stóðu.
11. mars 2021, á degi aðgengis, var stofnfundur átaksins haldinn í Iðnó. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem er verndari verkefnisins, flutti stutt ávarp og það gerðu einnig Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Haraldur Þorleifsson, aðalhvatamaður átaksins. Fundurinn fékk mikla umfjöllun á báðum sjónvarpsstöðvum sem og flestum útvarpsstöðvum og dagblöðum.
16. apríl var fyrsti rampurinn vígður við hátíðlega athöfn við Kokku að Laugavegi 47.
Margrét Lilja,.stjórnarkona Sjálfsbjargar, vígði rampinn og ávörp fluttu Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku, Ásmundur Einar Daðason, barna- og félagsmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
8. júní var þrítugasti rampurinn vígður við Prakt, Laugavegi 82. Af því tilefni var lítil athöfn haldin í gullsmíðaverkstæðinu. Haukur Hákon Loftsson vígði rampinn og flutti stutt ávarp og það gerði einnig Edda Bergsteinsdóttir, annar eigandi Prakt gullsmiðju.
24 júní var fimmtugasti rampurinn vígður við verslunina Yeoman, Laugavegi 7. Inga Björk Margrét Bjarnadóttir vígði rampinn og flutti stutt ávarp og það gerðu einnig eigandi verslunarinnar, Hildur Yeoman, myndlistarkona og fatahönnuður, og Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastýra Sjálfsbjargar.
Að því loknu sló Römpum upp Reykjavík upp tveggja tíma götuhátíð þar sem töframaður, plötusnúður, sirkus, eldgleypir og risi skemmtu. Boðið var upp á andlitsmálun, gos, djús og candyfloss.
7. September vígðu þær Karen Ósk Óskarsdóttir og Elva Rós Hrafnsdóttir átttugasta rampinn, sem staðsettur er fyrir utan veitingastaðinn Rossopomodoro. Með þeim í för var sonur þeirra, Birnir Matthías Elvuson, sem fékk þann heiður að vígja rampinn í barnavagni.
1 nóvember vígðu svo Haraldur Þorleifsson, Margrét Rut Eddudóttir og börn þeirra, Emma og Miro, hundraðasta rampinn.
Verkefnið í fjölmiðlum
Frá upphafi var lögð var rík áhersla á að forðast reiði og ásakanir heldur nálgast verkefnið af jákvæðni því í einfaldleika sínum væri þetta ekkert mál. Skipulega var unnið í því að skapa jákvætt andrúmsloft í kringum verkefnið og mikið lagt í góða og faglega kynningu og fallega umgjörð. Með þessu tókst að vekja umtalsverða velvild og áhuga á átakinu og flestar dyr hafa staðið opnar þegar leitað er aðstoðar.
Frábærir fagmenn á sviði almannatengsla og hönnunar hafa tekið þátt í Aðgengissjóðnum frá upphafi og haldið þétt utan um verkefnið.
Brandenburg, einn stofnenda sjóðsins hefur ásamt Haraldi séð um hönnun, merki, grunnútlit og utanumhald heimasíðu (hlekkur á rampur.is, og hönnun á ýmiss konar límmiðum, „minirömpum“ og veggborðum svo fátt eitt sé talið.
Aton JL sem einnig er í hópi stofnenda tók að sér almannatengsl og samskipti við fjölmiðla, fréttatilkynningar, ýmiss konar textagerð og utanumhald um viðburði.
Að frumkvæði gjaldkera sjóðsins var opnuð Facebook-síða með myndum og fréttum af rampagerð og ýmsum viðburðum.
Fleiri lögðu hönd hönd á þessa vinnu, s.s. Jakob Frímann Magnússon, Bjarni Brynjólfsson, Birgir Jóakimsson og Haukur Hákon Loftsson að ógleymdum Hjálmtý Heiðdal og fyrirtæki hans, Seylan, sem hefur ljós- og kvikmyndað öll tímamót á þessari vegferð eftir stofnundinn 11 mars og ekki tekið krónu fyrir.