Stofnaðilar

Össur:

"Össur er stoltur stofnaðili Aðgengissjóðs Reykjavíkur. Sem alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki, með höfuðstöðvar á Íslandi, er okkur bæði ljúft og skylt að styðja við verkefni sem bæta lífsgæði hreyfihamlaðra. Margir þurfa að lifa með líkamlegri fötlun af völdum sjúkdóma eða aflimunar og okkar hlutverk um fimmtíu ára skeið hefur verið að gera fólki kleift að njóta sín til fulls með bestu stoð- og stuðningstækjum sem völ er á. Áratuga þróunarstarf hefur skapað mikla þekkingu og gert Össur að leiðandi afli á heimsvísu. Við kappkostum að vörur okkar og þjónusta fari fram úr væntingum viðskiptavina og stuðlum að því með tækni, rannsóknum og nýsköpun.

Hjá Össuri verðum við daglega vitni að því að sýn okkar verði að veruleika - fólk yfirstígur líkamlegar hindranir, fær notið sín til fulls og öðlast betra líf. Verkefnið Römpum upp Reykjavík er sannarlega til vitnis um það."

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar

Reykjavíkurborg

"Þegar Haraldur Þorleifsson nálgaðist okkur með þá hugmynd að rampa upp Reykjavík þá vissi ég að þetta verkefni yrði eitthvað alveg magnað. Halli lagði mikla áherslu á þétt og gott samstarf við borgina því það eru ótal mörg handtök og leyfi til að setja upp einn ramp. Stundum þarf eldhuga til að klára mál og höggva á hnúta sem hafa myndast.

Samstarfið við Halla eftir að hann byrjaði hefur verið algjörlega einstakt. Hann hefur lag á fólki og kann að láta hluti gerast, nokkuð sem er alls ekki öllum gefið. Aðgengismál í Reykjavík hafa verið að taka stakkaskiptum á undanförnum árum þar sem við erum að taka í gegn eldri gönguleiðir og setja aðgengi fyrir allt fólk í forgang eftir forskrift algildrar hönnunar. Aðgengi að verslunum og þjónustu á Laugaveginum og víðar er þess vegna lykilatriði í því  ferðalagi og hefði ekki tekist án frumkvæðis og atorkusemi Halla og hans fólks.

Takk Halli og til hamingju Reykjavík!"

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík