Römpum upp Ísland

Inngangur

Eitt lítið þrep getur skilið á milli þess hvort einstaklingur sem notar hjólastól geti tekið þátt í samfélaginu. Hvort við getum hitt vini okkar á kaffihúsi eða verslað inn jólagjafir fyrir börnin okkar.

Oft þarf ekki miklar breytingar til þess að laga þetta þrep og opna þannig nýjan heim fyrir þúsundir einstaklinga. (lesa meira)

Í mars 2021 var verkefnið Römpum upp Reykjavík kynnt. Markmiðið var að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum í Reykjavík. Lagt var upp með að byggja 100 rampa á einu ári. Það tókst á átta mánuðum.

Römpum upp Reykjavík var hugsað sem tilrauna- og lærdómsverkefni. Tilraunin gekk upp og við lærðum margt.

Með þessa reynslu í farteskinu er markmiðið að fara í næsta verkefni þar sem við ætlum okkur að byggja 1000 rampa um allt Ísland á næstu fjórum árum.

Römpum upp Ísland.

Tilgangur og markmið

Markmið stofnunarinnar er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þeim stöðum þar sem fólk kemur saman.

 • Stofnunin sinnir ekki aðgengi hreyfihamlaðra að byggingum á vegum opinberra aðila en hvetur viðkomandi að sinna því verkefni reynist þörf á.
 • Stofnunin byggir rampa og tryggir þannig að fólk með hreyfihömlun hafi aðgengi að þeirri þjónustu sem þar stendur til boða.
 • Byrjað verður á einföldustu og ódýrustu lausnum, s.s. lægstu mishæðinni og haft í huga að fyrir fólk í hjólastól er aðgengi jafnómögulegt hvort sem trappan er ein eða fleiri.
 • Sérstaka áherslu skal leggja á aðgengi að fjölförnum stöðum þar sem fólk kemur saman s.s. veitingastöðum, kaffihúsum, samkomuhús og börum. Næst þar á eftir verður áherslan á aðra fjölfarna staði s.s. verslanir, hótel, kvikmyndahús, leikhús o.s.frv.

Framkvæmd

Sjálfseignarstofnun verður stofnað utan um verkefnið sem mun sjá um alla framkvæmd.

Búið verður til fjögurra ára samvinnuverkefni einkaaðila og hins opinbera um aðgengi að 1000 veitingastöðum, verslunum, hótelum og annarri þjónustu einkaaðila á Íslandi.

Fjöldi rampa verður miðaður við höfðatölu í hverju sveitarfélagi sem tekur þátt.

Gert er ráð fyrir því að verkefnið verði kynnt 11. mars 2022 á degi aðgengis fyrir alla (og eins árs afmæli Römpum upp Reykjavik.)

Leiðarljós:

 • Ókeypis Sjóðurinn greiðir 100% fyrir allt sem þarf til að koma upp römpunum
 • Ekkert vesen Allt umstang fyrir húsnæðiseigendur verður lágmarkað. Við sjáum um að hanna rampana, sjáum um allar umsóknir til sveitarfélagsins og öll leyfi, og við útvegum verktaka sem byggja rampana hratt og örugglega.
 • Framtíðarlausnir Allir rampar eru byggðir til frambúðar, notast er við hellur, steypu og önnur endingargóð efni.
 • Fallegt Allir rampar eiga að falla að sínu umhverfi.

Ábyrgðaraðili verkefnisins: Haraldur Þorleifsson Endurskoðendur: ? Fjármálaleg ráðgjöf: Gunnar Bachman Hugmyndir og hönnun: Brandenburg Lögfræðileg ráðgjöf og utanumhald: Lex lögmannsstofa Samskipti, stefnumótun, sköpun og innleiðing: Aton.JL Verndari verkefnisins: Guðni Th Jóhannesson, Forseti Íslands

Fjármögnun

Félagið verður fjármagnað með framlögum frá opinberum og einkaaðilum sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að tryggja aðgengi allra að íslensku samfélagi.

Miðað við reynslu úr Römpum upp Reykjavík er gert ráð fyrir því að heildarfjárþörf verkefnisins verði um 400 milljónir á verðlagi 2022. Um 100 milljónir á ári.

Gert er ráð fyrir því að eftirtaldir aðilar styrki verkefnið:

 • Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga: 50 millj á ári
 • Haraldur Þorleifsson: 10 millj á ári
  • Haraldur leggur auk þess til einn starfsmann og aðra aðstoð
 • Reykjavíkurborg: 10 millj á ári
 • Önnur sveitarfélög: 10-15 millj á ári
  • miðað verður við fjárframlög sem hlutfall af framlagi Reykjavíkurborgar
 • Aðrir einkaðilar 15-20 millj á ári
  • Einkaaðilar styrktu Römpum upp Reykjavík um ca 30 millj og hafa margir þeirra líst yfir áhuga á að taka þátt í næsta verkefni.

Greitt verður fyrir eitt ár í einu með vilyrði um áframhaldandi samstarf ef fyrra ár gekk eins og gert var ráð fyrir.

Kostnaður:

Kostnaður sjóðsins felst í greiðslum vegna starfsfólks og verktaka sem vinna að hönnun, gerð rampanna, samskiptum við hlutaðeigandi og utanumhald en einnig vegna efniskaupa, ss hellna, sands, steypu, hitalagna, álplatna í hurðarop og varúðarmálningar á kantsteina o.fl. sem og eftir atvikum, ferða- og fæðiskostnað.

Ýmislegt smáræði:

Samvinna við opinbera aðila

Verkefni sem þetta er óvinnandi án náinnar samvinnu við opinbera aðila og velvildar af þeirra hálfu sem svo greinilega hefur komið í ljós í samskiptum við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar.

Það sýndi sig í verkefninu Römpum upp Reykjavík að samvinna og stuðningur Borgaryfirvalda skipti sköpum. Án skýrrar stefnumótunar þeirra hefði t.d verið erfitt að fá tilboð frá verktökum.

Það þarf að liggja fyrir að viðkomandi sveitarstjórn einseti sér að gera það sem í hennar valdi stendur til að átakið gangi hratt og vel fyrir sig, komi á virku samstarfi við viðkomandi skipulagsaðila sem uppfæri  verkferla, geri regluverkið hagstætt fyrir framkvæmdirnar og upplýsi það starfsfólk sitt sem að verkinu kemur.

Áður en verkefnið fer af stað verði, af hálfu viðkomandi sveitarfélags:

 • Séð um umsóknir um afnotaleyfi og eftir atvikum greiddur kostnaður vegna þeirra. Verktaki/verkefnisstjóri sæki um. Þarf að fylgja teikning af fyrirhugaðri framkvæmd, tímasetning og vinnusvæðamerking (vinnusvæðamerkingar eru unnar af fagfólki með tilskilin réttindi)
 • Útvegaður tengiliður vegna hitalagna í stétt (til leiðsagnar og ef eitthvað fer úrskeiðis)
 • Þar sem á þarf að halda verði verktökum sjóðsins útvegað bílastæði/kort fyrir stæði við verkstað
 • Sinni samskiptum við veitufyrirtæki ef á þarf að halda
 • Verði til aðstoðar við að skanna verksvæðið með hliðsjón af forgangsröðun.
 • Tryggi að einfaldari verkefni verði afgreidd með eins dags fyrirvara og öðrum flýtt eins og kostur er

Einnig er mikilvægt að sinna vel samstarfi við viðeigandi stofnanir ríkisins ss Húsnæðismálastofnun (HMS) og Minjastofnun

Verklag, verkefni og val þeirra

 • Þar sem um er að ræða tíu sinnum stærra verkefni en Römpum upp Reykjavík þarf að meta hvort ekki borgar sig í einhverjum tilfellum að fastráða starfsfólk.
 • Einnig þarf að huga að vinnuaðstöðu
 • Mikilvægt er að ráða hönnuð/hönnuði sem fyrst þannig að sá þáttur verði komin vel á skrið þegar verkið er boðið út.
 • Meta þarf hvort verktakar verða allir á einni hendi eða þeim dreift

Settar verða verklagsreglur sem síðan verða birtar á heimasíðu verkefnisins

 • Reglurnar verða ekki meitlaðar í stein og gætu tekið breytingum ef þurfa þykir.
 • Unnið verði samkvæmt eftirtöldum viðmiðum:
  • Forgang hafa þeir sem eru í sveitarfélögum sem hafa uppfært verkferla og gert regluverkið hagstætt fyrir framkvæmdirnar
  • Svæði A: Það sem telst miðja þéttbýlis.
  • Svæði B: Næstu svæði við þéttbýlið
  • Byrjað verður á lægstu hindrununum þar sem ein trappa er jafn mikil hindrun og 10 fyrir flesta hreyfihamlaða. Forgangur A: þrep að 15 cm, forgangur B: þrep að 25 cm. Forgangur sem almennt er hámark til að byrja með þar sem ekki þarf byggingarleyfi fyrir hindrunum upp að 25 cm
  • Unnið verður að lausnum þar sem hurðarop er að lágmarki 83 cm og hindrunarlaus er fyrir innan
  • Eingöngu unnið að því að koma á aðgengi inn í staðina. Af hálfu sjóðsins er ekki gerð krafa um aðra þætti, s.s salernisaðstöðu og sjálfvirka hurðaopnara en eigendur og rekstraraðilar hvattir til að huga að þeim málum.

Umsóknir

 • Boðið verður upp á umsóknir sem skila skal í ákveðnu formi
 • Allar umsóknir sem berast eru teknar og starfsmaður svarar umsóknum sem ýmist er vísað til hönnuðar til skoðunar eða eftir atvikum samþykktar eða hafnað með vísan í verklagsreglur sjóðsins.
 • Allar ósamþykktar umsóknir eru vistaðar og til skoðunar haldi verkefnið áfram.
 • Unnið er samkvæmt eftirfarandi verklagi:
  1. Sótt er um á heimasíðu Sjóðsins og umsækjendum svarað við fyrsta tækifæri í samræmi við forgangsröðun
  2. Ef umsókn er samþykkt fær umsækjandi í hendur hönnunargögn og verkáætlun. Áður en framkvæmd hefst ber umsækjanda að kynna sér viðkomandi gögn, veita upplýst samþykki og, eftir atvikum, afla samþykkis meðeiganda og gera ráðstafanir, verði röskun á rekstri á meðan á framkvæmd stendur

Eftirlit og úttektir

Það reyndist vel að hönnuður væri jafnframt verkefnisstjóri og úttektaraðili. Þó er mikilvægt að fulltrúi sveitarfélagsins sinni einnig eftirliti og jafnvel einnig þriðji aðili.